Skip to content

Heimavinna nemenda er hluti af námi hvers og eins. Ætlast er til þess að nemendur hafi lokið heimanámi fyrir upphaf hvers skóladags og fylgja kennarar því eftir. Öll heimavinna er skráð inn á Mentor. Auk þess geta kennarar skráð heimanám á Google Classroom. Mikilvægt er að nemendur og foreldrar fylgst vel með á báðum stöðum.

Heimanámi er ætlað að gefa foreldrum tækifæri til að fylgjast með viðfangsefnum barna sinna í skólanum og hvernig þeim gengur að takast á við námið. Í aðalnámsskrá grunnskóla kemur skýrt fram að ábyrgð á uppeldi barna er hjá foreldrum þeirra en einnig er lögð skýr áhersla á góða samvinnu heimilis og skóla. Einn þeirra þátta sem lítur að góðri samvinnu er heimanám.

Markmið heimanáms í Árbæjarskóla er eftirfarandi:

  • að þjálfa lestur, lesskilning og orðaforða
  • að rifja upp og þjálfa frekar það sem kennt hefur verið í skólanum
  • að auka skilning á námsefninu
  • að auka færni í námsefninu
  • að venja nemendur á ákveðin vinnubrögð og ögun í námi
  • að nemendur öðlist smátt og smátt færni í að undirbúa sig fyrir skólann
  • að gefa foreldrum tækifæri til að taka þátt í og fylgjast með námi barna sinna

Hlutverk foreldra í heimanámi

Mikilvægt er að skapa gott námsumhverfi heima fyrir og gefa heimanáminu tíma í erli dagsins. Foreldrar þurfa að sýna námi barnanna áhuga, leiðbeina þeim, hvetja og örva. Foreldrar gegna ekki síst mikilvægu hlutverki í lestrarnámi barna sinna þar sem þjálfun lesturs fer bæði fram heima og í skólanum.

Hlutverk nemenda í heimanámi

Nemendur þurfa að skipuleggja heimavinnuna með foreldrum, ætla því góðan tíma og skila því á réttum tíma. Þá þurfa nemendur að vera duglegir að biðja foreldra sína um aðstoð þegar þurfa þykir.

Hlutverk kennara gagnvart heimanámi

  • Gefa góðar upplýsingar um heimanámið á Mentor eða Google Classroom.
  • Senda nemendur heim með viðeigandi og undirbúin verkefni.
  • Gera kröfur um vönduð vinnubrögð.
  • Fara yfir heimanámið og veita leiðbeinandi endurgjöf.
  • Vera í góðum samskipum við foreldra.

Heimanám er hluti af námi nemenda og stuðlar að því að nemendur skilji mikilvægi þess að vinna vel og skipuleggja sig. Gott samstarf milli heimilis og skóla er nauðsynlegt og getur skipt sköpum um árangur í námi. Áhugi, aðstoð og hvatning frá foreldrum og kennurum ber alltaf árangur.