Í Árbæjarskóla er lögð áhersla á hollar og heilbrigðar lífsvenjur. Í skólastarfinu er hreyfing, hollt matarræði og heilsuvernd í hávegum höfð. Hreyfing stuðlar að heilbrigðum vexti og þroska og hún er jafn mikilvæg fyrir líkamlega og andlega heilsu. Reglulegri hreyfingu fylgja jákvæðar tilfinningar, bætt líðan, minni streita, sterkari sjálfsmynd og betri námsárangur. Í Árbæjarskóla stunda nemendur íþróttir, sund og dans, auk reglulegrar útiveru.
Börn sem eru að vaxa og þroskast þurfa öðrum fremur holla og fjölbreytta fæðu. Í mötuneyti Árbæjarskóla er lögð áhersla á að nemendur borði fjölbreyttan mat úr öllum fæðuflokkunum. Einnig er lögð rík áhersla á það við foreldra að nemendur snæði næringarríkan morgunmat en með honum er lagður grunnurinn að góðum degi. Árbæjarskóli býður nemendum og starfsmönnum, að kostnaðarlausu, upp á hafragraut alla morgna frá kl. 07:45 til 08:00. Einnig er nemendum í 8. – 10. bekk boðið upp á ókeypis hafragraut í frímínútum kl. 10:15 – 10:35. Börnum sem borða staðgóðan morgunmat gengur betur að halda athyglinni og njóta skóladagsins. Nemendur hafa með sér nesti á degi hverjum og eru þeir og foreldrar þeirra hvattir til að huga vel að því að það sé hollt og gott, t.d. gróft brauð með hollu áleggi, ávextir og grænmeti. Áhersla er lögð á hollt matarræði í heimilisfræðikennslu. Í lífsleikni og skólaíþróttum eru hollum lífsvenjum gerð sérstök skil.
Svefn er mikilvægasta hvíldin sem líkaminn og heilinn fær. Því er lögð áhersla á það við nemendur og foreldra að hugað sé að nægum nætursvefni og að nemendur mæti úthvíldir til skóla.
Starfsfólk skólaheilsugæslunnar vinnur í náinni samvinnu við foreldra, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda, með velferð þeirra að leiðarljósi. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Helstu áherslur í skólaheilsugæslu eru fræðsla, heilsuefling, bólusetningar, skimanir, skoðanir, umönnun veikra og slasaðra barna ásamt ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans.
Þegar kemur að hollum lífsvenjum og traustum grunni í heilsuvernd gegna foreldrar lykilhlutverki enda verður skólinn aldrei til neins annars en að styðja við þá í þeirra mikilvæga uppeldisstarfi.