Skip to content

Mötuneyti og nesti

Mötuneyti Árbæjarskóla er fyrir nemendur og starfsfólk skólans. Þar starfar matreiðslumeistari ásamt skólaliðum. Á matmálstímum eru kennarar, skólaliðar og stuðningsfulltrúar börnunum til aðstoðar í matsal og mötuneyti. Í mötuneytinu er boðið upp á heitan mat í hádeginu.

Matseðill er ákveðinn fyrir hvern mánuð í senn og birtist á heimasíðu skólans. Við samsetningu hans er lögð sérstök áhersla á hollustu og fjölbreytni.

Mikilvægt er að nemendur borði staðgóðan morgunverð áður en haldið er til skóla og hafi með sér hollt og gott nesti. Að morgni dags er boðið upp á hafragraut í skólanum frá kl. 7.45 – 8.00, nemendum og starfsfólki að kostnaðarlausu. Í nestistíma nemenda í 8. – 10. bekk er nemendum einnig boðið upp á hafragraut kl. 10:15 – 10:35.

Uppbygging matseðlanna er með þeim hætti að hver dagur hefur sína sérstöðu

Mánudagar – Fiskréttir

Þriðjudagar – Pastaréttir

Miðvikudagar – Fiskréttir

Fimmtudagar – Kjötréttir

Föstudagar – Súpur eða grautar

Meðlæti með réttum skammta nemendur sér sjálfir og  er alltaf grænmeti, ávextir eða annað það meðlæti sem við á, í boði. Þegar boðið er upp á brauð með mat er gróft brauð á boðstólum. Með matnum er alltaf boðið upp á vatn.

Nemendur í 1. -7. bekk snæða nesti sitt, sem þeir koma með að heiman, í kennslustofum í annarri eða þriðju kennslustund. Lögð er áhersla á að foreldrar sendi börn sín í skólann með hollt og gott nesti, gróft brauð með hollu áleggi, grænmeti eða ávexti. Einungis er heimilt að drekka vatn með morgunnestinu.

Lögð er áhersla á að foreldrar hvetji nemendur í 8. -10. bekk til að hafa með sér hollt og gott nesti að heiman sem þeir neyta í frímínútum. Nemendur í 8. -10. bekk hafa aðgang að örbylgjuofnum og samlokugrillum og geta hitað upp þann mat og nesti sem þeir koma með að heiman.

Foreldrum er bent á að sumir skóladagar nemenda í 8. – 10. bekk eru langir og því er mikilvægt að nemendur séu vel nestaðir.

Skráning í mat

Allir nemendur í grunnskólum borgarinnar hafa aðgang að hádegismat í skólanum. Mataráskrift kostar það sama í öllum skólum borgarinnar en ekki þarf að greiða fyrir fleiri en tvö grunnskólabörn frá hverju heimili. Matseðill er birtur á heimasíðu skóla. Nemendur eru skráðir í mat rafrænt á vefnum Rafræn Reykjavik https://rafraen.reykjavik.is/pages/

Mánaðarlegt gjald er samkvæmt ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur hverju sinni. Innheimt er jafnaðargjald miðað við 20 daga í mánuði. Ekki er innheimt fyrir mat í júlí og ágúst. Foreldrar greiða einungis skólamáltíðir fyrir tvö börn, eins og áður segir, önnur njóta 100% afsláttar. Reglan gildir milli grunnskóla í Reykjavík. Upplýsingar um verð má nálgast á vef borgarinnar en slóðin er eftirfarandi:

https://reykjavik.is/gjaldskrar/verd-maltidum-i-grunnskolum

Innheimta vegna mötuneyta grunnskóla Reykjavíkur er þannig að stofnuð er krafa í banka með gjalddaga í byrjun þess mánaðar sem innheimt er fyrir og 30 dögum seinna er eindagi. Vilji foreldrar segja upp mataráskrift þarf uppsögn að berast í síðasta lagi fyrir 20. dag mánaðarins, annars tekur hún gildi næsta mánuð á eftir.  Ef matarreikningur er ekki greiddur færist hann til milliinnheimtu og síðar er áskrift sagt upp.

Óþol eða ofnæmi

Hafi nemendur ofnæmi eða óþol er mjög mikilvægt að koma því á framfæri með læknisvottorði á skrifstofu skólans.