Skip to content

Í Árbæjarskóla er stöðugt unnið að því að þróa nám og kennslu í samræmi við niðurstöður rannsókna á því sviði. Í aðalnámskrá grunnskóla (2011) segir að leggja skuli áherslu á leiðsagnarmat – þar sem nemendur velta reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Leiðin er vörðuð og upphafið er skipulagt með markið í huga. Leiðsagnarmat er stór hluti af leiðsagnarnámi og mikilvægt að tengja efni aðalnámskrár við niðurstöður rannsókna. Skólar sem fylgja þessari aðferðafræði hafa náð mjög góðum framförum í námi og það er ávallt markmið okkar í Árbæjarskóla.

Leiðsagnarnám byggir á fimm stoðum og ein þeirra er námsmenningin. Við viljum hafa þannig námsmenningu í Borgaskóla að við höfum væntingar til allra, að vaxandi hugarfar sé ríkjandi, að mistök skapi tækifæri til að læra, að það séu fjölbreyttir kennsluhættir, að við vinnum bæði saman í hópum, pörum og sem einstaklingar. Námsmenning verður til innan veggja skólans og einnig í samstarfi við heimilin. Niðurstöður rannsókna (Dweck, 2015) sýna að þegar sjónum er beint að greind, meðfæddum hæfileikum eða öðru sem börn hafa ekki tekið þátt í að skapa aukast líkur á að fastmótað hugarfar verði ríkjandi. En ef athyglinni er beint að þrautseigju, dugnaði eða öðru því sem er í höndum nemenda að vinna með aukast líkur á vaxtandi hugarfari. Dugnaður og þrautseigja er einn af lykilhæfniþáttum sem áhersla er lögð á í skólastarfi.

Eftirtalin hugtök eiga að einkenna leiðsagnarnám í Árbæjarskóla:

  • Hugarfar:Við viljum efla vaxandi hugarfar (growth mindset) nemenda gagnvart námi sínu. Þegar nemendur tileinka sér vaxandi hugarfar þá vita þeir að framfarir nást með þrautseigju. Ef þeir telja að hæfileikar séu eingöngu meðfæddir og annað hvort geti þeir eða geti ekki, þá hafa þeir fastmótað hugarfar (fixed mindset).
  • Mistök:Við lítum svo á að mistök skapi tækifæri til að læra. Enginn þarf að skammast sín fyrir að gera mistök, því allir mestu snillingar heimsins hafa gert fjölda mistaka og lært af þeim. Ef nemendur þurfa ekkert að hafa fyrir náminu, þá er verkefnið sennilega of auðvelt og nemendur læra lítið eða ekkert.
  • Heilinn: Líkt og vöðvar, þá eflist heilinn þegar hann er notaður.
  • Markmið:Nemendur vita hvað þeir eru að læra í hverri kennslustund, ekki bara hvað þeir eru að gera. Þeir stefna að ákveðnu markmiði og vita hvar þeir eru staddir á leið sinni þangað og hvenær þeir hafa náð markmiðinu.
  • Viðmið:Það hjálpar nemendum að ná árangri þegar þeir vita hvað þarf að vera til staðar svo verkefnið sé gott. Stundum ákveða nemendur og kennari saman hvernig gott verkefni þarf að vera.
  • Endurgjöf: Í kennslustund bendir kennari nemendum reglulega á hvernig þeim gengur að ná markmiðum sínum og hvað þeir geta gert til að gera enn betur. Þannig geta nemendur strax nýtt endurgjöfina. Stundum getur endurgjöfin líka verið skrifleg, aðalatriðið er að hún hjálpi nemendum að ná markmiðum sínum. Nemendur gefa einnig hver öðrum endurgjöf út frá þeim viðmiðum sem hafa verið skilgreind, og nemendur meta sjálfir eigin vinnu. Áhersla er lögð á að kennarar nýti sér einnig þá endurgjöf sem þeir fá frá nemendum.
  • Námsfélagar/samráðsfélagar:Tveir og tveir nemendur svara saman spurningum, leysa verkefni  eða skiptast á hugmyndum í afmarkaðan tíma. Það hjálpar nemendum að orða hugsanir sínar og þeir læra hver af öðrum. Nemendur skipta reglulega um námsfélaga/samráðsfélaga.
  • Samræður:Kennari varpar reglulega fram spurningum, athugasemdum eða hugmyndum til að vekja áhuga og forvitni nemenda. Í stað þess að biðja nemendur um að rétta upp hönd dregur hann nafn þess sem segir frá, eftir að allir hafa fengið tíma til að hugsa. Þetta er gert svo allir heilar í hópnum glími við spurninguna sem lögð er fyrir en sumir bíði ekki eftir því að þeir sömu svari alltaf fyrir þá.
  • Vinnubrögð:Nemendur vinna á fjölbreyttan og skapandi hátt og hafa ýmsa möguleika til að læra og sýna hvaða hæfni þeir hafa tileinkað sér. Þeir vinna ýmist einir, í pörum eða í stærri hópum. Áhersla er lögð á meðvitund nemenda um eigið nám og að þeir beri ábyrgð á námi sínu í samræmi við þroska.

Árbæjarskóli