Skip to content

Nemendur í 10. bekk útskrifast með einkunnir samkvæmt matskvarða Aðalnámskrár grunnskóla. Þann matskvarða er skólum skylt að nota við brautskráningu nemenda.

Í Aðalnámsskránni eru skilgreind ákveðin matsviðmið fyrir faggreinar í lok hvers greinakafla. Þau eru lýsing á hversu vel nemandi hefur skilgreinda hæfni á valdi sínu.  Við mat á hæfni nemenda er notaður kvarðinn A, B, C, D, þar sem A lýsir framúrskarandi hæfni, B lýsir góðri hæfni, C sæmilegri hæfni og D hæfni sem nær ekki viðmiðum sem lýst er í C.  Þá hefur verið bætt við kvarðann B+ og C+ sem getur nýst þegar nemendur hafa náð að hluta þeim viðmiðum sem lýst er í Aðalnámskránni varðandi A og B. Ekki verða útbúin sérstök matsviðmið fyrir þessa viðbót heldur gildir það að sá sem hefur náð meginþorra B matsviðmiða og náð einstökum þáttum í A getur fengið B+ og sá sem hefur náð meginþorra C matsviðmiða og einstökum þáttum í B getur fengið C+. Á vef Menntamálastofnunar um fyrirkomulag á nýju námsmati kemur fram nemandi sem fær A þarf að vera búin að ná öllum matsviðmiðum greinar.

Hægt er að gefa lokið / ólokið í ákveðnum greinum en þó þarf einnig að vera ljóst í þeim greinum hvaða skilgreindu hæfni nemandinn hefur á valdi sínu.

Lokamatið verður því eftirfarandi:

     A

     Framúrskarandi hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.

    B+

    Notað þegar hæfni er sambærileg þeirri lýsingu sem á við einkunnina B og að hluta til þeirri lýsingu sem á við einkunnina A.

    B

    Góð hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.

    C+

   Notað þegar hæfni er sambærileg þeirri lýsingu sem á við einkunnina C og að hluta til þeirri lýsingu sem á við         einkunnina B.

    C

    Sæmileg hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.

   D

    Hæfni og frammistöðu í námi ábótavant með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.

Stjörnumerktar einkunnir fá þeir nemendur sem stundað hafa nám sitt að fullu eða að hluta eftir aðlagaðri námskrá og viðmiðum í samræmi við metnar sérþarfir, en ekki samkvæmt hæfni og matsviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla.

Nemendur í 8. – 9. bekk eru metnir á sama hátt. Flestar einkunnir verða í bókstöfum en matið lokið / ólokið er notað í nokkrum valgreinum. Í Mentor eru hæfniviðmið og matsviðmið skilgreind.

Námsmat nemenda í 5. – 7. bekk er í bókstöfum og eru hæfniviðmið skilgreind í Mentor.

 

Námsmat nemenda í 1. – 4. bekk er þannig að í öllum greinum verða hæfniviðmið skilgreind í Mentor en engar sérstakar einkunnir gefnar fyrir hverja grein.

Skipulag námsmats

Leitast er við að byggja námsmatið í skólanum sem mest á leiðsagnarmati, sem metur fjölbreytta hæfni nemenda á lengri tíma. Nemendur og foreldrar eiga jafnt og þétt yfir skólaárið að fá reglulegar og skýrar upplýsingar um það sem nemendur kunna eða geta á hverjum tíma. Með þessum hætti er lögð áhersla á að bæði nemendur og foreldrar fái tilfinningu fyrir því sem hefur áunnist og hvert viðkomandi nemandi stefnir.

Í skólanámskrá kemur fram hvaða hæfniviðmið og matsviðmið liggja til grundvallar í hverri námsgrein enda eiga nám, kennsla og námsmat að haldast í hendur. Hæfniviðmið Aðalnámskrár í hverri grein fyrir sig eru sá grundvöllur sem nám, kennsluhættir og námsmat eiga að byggja á. Því er í skólanum lögð áhersla á einstaklingsmiðað nám, fjölbreytta kennsluhætti og vel skilgreint námsmat. Lögð er áhersla á að í tengslum við þau verkefni og próf sem lögð eru fyrir nemendur sé ljóst hvaða hæfniviðmið er verið að meta hverju sinni og við hvaða matskvarða hæfniviðmiðin tengjast. Niðurstöður einstakra verkefna og prófa eru síðan birtar inni á Mentor þar sem sjá má þau hæfni­viðmið sem unnið er með hverju sinni.