Í Árbæjarskóla stendur yfir innleiðing á leiðsagnarnámi/leiðsagnarmati þar sem lögð er áhersla á að nemendur séu sífellt að bæta við sig þekkingu og leikni og öðlist þannig ákveðna hæfni. Til að skýra þetta betur hefur oft verið tekið dæmi af drengnum sem var falið það verkefni að teikna fiðrildi eftir fyrirmynd og hvernig myndin hans þróaðist frá fyrstu teikningu í lokaafurð. Á leiðinni þáði hann leiðsögn kennara og samnemenda.
Á skólaárinu er haldið áfram með innleiðingu á leiðsagnarmati/leiðsagnarnámi og lýtur það skref að breytingu á námsmati sem aðallega snertir mið- og unglingastig skólans. Breytingin er í fullu samræmi við áherslu aðalnámskrár grunnskóla þar sem stendur m.a.:
Megintilgangur námsmats er að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum þess. Með námsmati er fylgst með því hvernig nemendum tekst að ná almennum hæfniviðmiðum aðalnámskrár, stuðlað að námshvatningu, nemendur örvaðir til framfara og metið hverjir þurfa á sérstakri aðstoð að halda. Meta þarf alla þætti námsins, þekkingu, leikni og hæfni með hliðsjón af hæfniviðmiðum í aðalnámskrá.
Leggja skal áherslu á leiðsagnarmat sem byggist á því að nemendur velti reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skal stefna.
Markmiðið skólans er að gera nemendur enn meðvitaðri um hæfniviðmið aðalnámskrár sem tengjast hverju verkefni, hverri könnun o.s.frv. Með námsmatinu er lögð áhersla á að nemendur viti hvar þeir standa út frá hæfniviðmiðunum og að gera þá meðvitaða um hvað þeir þurfi að bæta og hvernig þeir geti bætt sig. Í skólanámskrá Árbæjarskóla kemur fram hvaða hæfniviðmið liggja til grundvallar í hverri námsgrein.
Í stað þess að nemendur á mið- og unglingastigi fái bókstafi fyrir lokin verkefni/kannanir og próf er þeim gefið fyrir stöðuna í þeim hæfniviðmiðum sem liggja til grundvallar verkefninu. Við matið er stuðst við eftirfarandi tákn:
Nemendur og foreldrar fá þannig reglulegar og skýrar upplýsingar um það sem nemendur kunna og geta á hverjum tíma, hvaða hæfniviðmiðum nemandinn hefur náð tökum á og hvað þarf að þjálfa betur. Í raun má segja að námsmatið sé nákvæmara auk þess sem það er fært inn í hæfnikort nemandans (í Mentor) jafnt og þétt yfir skólaárið sem auðveldar yfirsýn foreldra.
Námsmat í Árbæjarskóla birtist nemendum og foreldrum með eftirfarandi hætti:
Í þremur árgöngum, í lok yngsta stigs í 4. bekk, í lok miðstigs í 7. bekk og lok unglingastigs í 10. bekk, er námið síðan metið út frá matsviðmiðum aðalnámskrár fyrir tilteknar faggreinar. Matsviðmiðin eru lýsing á hversu vel nemandi hefur skilgreinda hæfni á valdi sínu. Við mat á hæfni nemenda er notaður kvarðinn A, B, C, D, þar sem A lýsir framúrskarandi hæfni, B lýsir góðri hæfni, C sæmilegri hæfni og D hæfni sem nær ekki viðmiðum sem lýst er í C. Þá hefur verið bætt við kvarðann B+ og C+ sem getur nýst þegar nemendur hafa náð að hluta þeim viðmiðum sem lýst er í Aðalnámskránni varðandi A og B.
Eins og fram kemur hér að ofan þá eru einungis gefnir bókstafir í lok 4., 7. og 10. bekkjar. Hér fyrir neðan er útskýrt á einfaldan hátt hvað haft er til hliðsjónar við einkunnagjöf: