Skip to content

Námsráðgjafar skólans eru tveir, Elín Sif Welding Hákonardóttir og Þórdís Eva Sigurðardóttir. 

Hlutverk námsráðgjafa er að vera talsmenn nemenda í skólanum, standa vörð um velferð nemenda og leita lausna í málum þeirra.  Námsráðgjafar eru bundnir þagnarskyldu um einkamál nemenda, að undanskyldum ákvæðum í lögum um barnavernd nr. 80/2002.  Öllum nemendum og foreldrum stendur til boða að leita til námsráðgjafa.

Forráðamenn geta pantað tíma hjá námsráðgjafa í síma 411-7700 eða með tölvupósti á netföngin elin.sif.welding.hakonardottir@rvkskolar.is og toes50@rvkskolar.is

 

Helstu verkefni námráðgjafa:

  • ráðgjöf og fræðsla um náms- og próftækni
  • ráðgjöf um náms- og starfsval nemenda
  • persónulegur og félagslegur stuðningur við nemendur
  • ráðgjöf og aðstoð í eineltis- og forvarnarmálum
  • móttaka nýrra nemenda
  • fundarseta í nemendaverndarráði
  • reglulegt samstarf við Töfrasel, Tíuna, Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og heilsugæslu hverfisins

Námsráðgjöf 1. – 7. bekk

Nemendum í 1.-7. bekk stendur til boða að leita eftir aðstoð og ráðgjöf námsráðgjafa vegna náms- eða persónulegra málefna. Nemendur geta snúið sér beint til námsráðgjafa og óskað eftir aðstoð. Á þessu skólastigi er algengt að umsjónarkennarar eða foreldrar vísi málum til námsráðgjafa.

Námsráðgjafar bjóða eftir þörfum upp á skipulögð námskeið m.a. í tengslum við félagfærni og sjálfstjórn, prófkvíða, sjálfstyrkingu, samskipti og fleira. Námskeið­in eru skipulögð í samráði við skóla­stjórnendur og umsjónarkennara. Samþykki foreldra þarf ávallt að liggja fyrir.

Námsráðgjafar koma að forvarnartengdri fræðslu og leggja fyrir tengslakannanir í 1.-7. bekk í samráði við umsjónarkennara hvers árgangs.

Námsráðgjöf 8. – 10. bekkur

Nemendum í 8.-10.bekk stendur til boða að leita eftir aðstoð og ráðgjöf námsráðgjafa vegna náms eða persónulegra málefna. Nemendur geta snúið sér beint til námsráðgjafa á skólatíma.

Námsráðgjafar bjóða auk þess upp á námskeið og fræðslu eftir þörfum m.a. í tengslum við námstækni, prófkvíða og sjálfstyrkingu.

Nemendur í 10. bekk fá 1 kennslustund í viku í náms- og starfsfræðslu þar m.a. verður farið í

  • námstækni
  • verkefni sem tengjast gildismati, viðhorfum, áhuga og fyrirætlunum nemenda
  • námsleiðir sem bjóðast á framhaldsskólastigi
  • vinnumarkaðinn
  • tengsl náms og starfs
  • gerð ferilskráa
  • framtíðar markmiðasetningu
  • atvinnuumsóknir
  • upplýsingatækni í upplýsingaleit um nám og störf

Nemendum Árbæjarskóla er boðið á sameiginlega kynningu framhaldsskólanna, auk þess senda námsráðgjafar upplýsingar til foreldra og nemenda um opin hús í framhaldsskólum. Nemendur geta fengið einstaklingsmiðaða ráðgjöf ef þess er óskað.

 

Námsráðgjafar geta veitt upplýsingar um framhaldsskóla og ýmis önnur mál. Á vefslóðunum menntagatt.is og naestaskref.is má einnig finna upplýsingar um nám og störf.

Þá koma námsráðgjafar að forvarnartengdri fræðslu og leggja fyrir tengslakannanir í árgöngum í samráði við umsjónarkennara.

Námstækni

Með námstækni er átt við þær aðferðir sem nemandinn notar við að tileinka sér námsefnið. Einstaklingsbundið er hve langan tíma það tekur hvern og einn að læra eitthvað nýtt. Áhugi, einbeiting og námstækni skipta þar miklu máli. Sá sem vill bæta árangur sinn ætti því að skoða námsvenjur sínar og athuga hvernig hann getur bætt þær. Markmið fræðslu og ráðgjafar um námstækni er að nemendur kynnist hugsunum, viðhorfum, og námsaðferðum sem rannsóknir og reynsla hafa sýnt að eru árangursríkar.

Námsráðgjafi getur rætt við nemendur um:

  • námsaðferðir
  • námsvenjur
  • skipulag
  • einbeitingu
  • minnistækni
  • upprifjun
  • próftækni
  • lestraraðferðir
  • glósutækni
  • aðferðir til að draga úr prófkvíða

 

Til að ráðgjöfin nýtist nemandanum sem best er mikilvægt að hann hafi áhuga og vilja til að nýta sér aðstoðina. Námsráðgjafar kenna nemendum námstækni bæði einstaklingslega sem og í litlum hópum.

Persónuleg ráðgjöf

Námsráðgjafi veitir nemendum stuðning vegna persónulegra og félagslegra mála, skólasóknar og hegðunar.  Stuðningurinn er einstaklingsmiðaður þar sem nemandanum er hjálpað að leita lausna. Námsráðgjafinn vísar á önnur úrræði sé þess þörf. Sá stuðningur sem námsráðgjafinn veitir hefur það að markmiði að aðstoða nemandann þannig að hann geti náð hámarks árangri í námi sínu. Námsráðgjafi er bundinn trúnaði um einkamál nemenda.

Dæmi um vandamál sem hægt er að leita aðstoðar við eru:  Námsleiði, mætingar, vandamál í samskiptum, stríðni, einelti, sorg, þunglyndi, kvíði, feimni og vímuefni.

Atvinnutengt nám er í boði fyrir þá nemendur sem nemendaverndarráð telur að þurfi á því að halda. Námsráðgjafar skólans halda utan um þá nemendur sem sækja atvinnutengt nám og eru tengiliðir við vinnustaði nemendanna.