Skip to content

Við Árbæjarskóla starfar nemendafélag. Nemendafélagið vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Nafn félagsins er Nemendafélag Árbæjarskóla og starfar það samkvæmt áður nefndum lögum um grunnskóla. Allir nemendur Árbæjarskóla teljast félagar í nemendafélagi Árbæjarskóla. Valdir eru annars vegar árgangafulltrúar úr 5. – 7. bekk og hins vegar árgangafulltrúar úr 8. – 10. bekk sem eru fulltrúar sinna árganga í nemendaráði.

Í aðalstjórn nemendafélagsins eiga sæti átta fulltrúar úr 8. – 10. bekk skólans og er leitast við að hafa jafna kynjaskiptingu í ráðinu. Formaður nemendafélagsins er kosinn úr hópi nemenda í 10. bekk og varaformaðurinn er kosinn úr hópi nemenda í 9. bekk.

Aðalstjórn skiptir með sér verkum á fyrsta fundi nýrrar stjórnar.  Hún hefur ákvörðunar- og framkvæmdavald í öllum almennum málum Nemendafélags Árbæjarskóla. Við skólann starfa einnig fjöldi nefnda og ráða sem nemendur bjóða sig fram til þátttöku í.

Í skólanum er starfandi félagsstarfskennari sem heldur utan um starf nemendafélagsins og félagsstarfið ásamt öðrum verkefnum. Hann sér til þess að fundað sé reglulega og hefur yfirumsjón með skipulagi félagsstarfsins í Árbæjarskóla.

Í lögum um grunnskóla, 91/2008, segir í 10. gr.um starfsemi nemendafélaga við grunnskóla:

Við grunnskóla skal starfa nemendafélag og er skólastjóri ábyrgur fyrir stofnun þess. Nemendafélag vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda og skal skólastjóri sjá til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum. Nemendafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð, skv. 2. mgr. 8. gr.

Innan nemendafélagsins starfa einnig nefndir sem skipta með sér verkum. Allir nemendur unglingadeildar geta sótt um aðild að nefnd með því að skila inn umsókn og koma í viðtal. Nefndirnar eru til þess að auka ábyrgð nemenda og gefa fleirum kost á því að taka þátt í skipulagningu félagsstarfsins. Það er ennfremur markmið nefndanna að virkja fleiri utan nefndarinnar, sem hafa áhuga á tilteknu sviði, til að taka þátt og hjálpa til en hafa kannski ekki tök á því að skuldbinda sig í fasta nefndarsetu.

Nemendastjórin er með fasta fundartíma og fundar einu sinni í viku.

Hér má síðan sjá skipurit nemendafélagsins: