Yfirumsjón sérkennslu og sértækrar þjónustu í skólanum er í höndum deildarstjóra stoðþjónustu. Hann skilgreinir í samráði við Nemendaverndarráð, skólastjórn, kennara og sérfræðiþjónustu skóla, þá sértæku þjónustu sem nemendum stendur til boða í Árbæjarskóla.
Sértækri þjónustu til nemenda er sinnt á einstaklingsbundinn hátt eða í smærri námshópum. Henni sinna ýmist þroskaþjálfi, sérkennarar, almennir kennarar, stuðningsfulltrúar eða aðrir starfsmenn. Þá eru talmeinafræðingar með viðveru í skólanum tvo daga í viku. Lausnateymi er starfrækt í skólanum í samstarfi við þjónustumiðstöð. Lausnateymið skipa auk námsráðgjafa og þroskaþjálfa frá skólanum, tveir hegðunarráðgjafar frá þjónustumiðstöð. Teymið er með fundartíma tvisvar í mánuði og þangað geta kennarar og stuðningsfulltrúar leitað með ýmis mál sem viðkoma hegðun nemenda.
Fyrirkomulag sértækrar þjónustu fyrir einstaka nemendur er skipulagt í samvinnu við nemendur og foreldra.