Skip to content

Skólaheilsugæsla/viðvera hjúkrunarfræðings

Heilsuvernd skólabarna í Árbæjarskóla er á vegum Heilsugæslustöðvarinnar í Árbæ. Síminn í Árbæjar­skóla er 411-7700 og síminn á Heilsugæslunni í Árbæ er 585-7800. Viðverutími skólahjúkrunarfræðings í skólanum (með fyrirvara um breytingar) er eftirfarandi:

Mánudag           kl. 8:30 -  14:00

Þriðjudag           kl. 8:00 – 14:00

Miðvikudag       kl. 9:30 – 13:00

Fimmtudag        kl. 8:00 – 14:00

Föstudag           kl. 8:00 – 13:00

Ásta María Runólfsdóttir og Birna Sólveig Björnsdóttir eru skólahjúkrunarfræðingar Árbæjarskóla.

Netfang skólahjúkrunarfræðings er: arbaejarskoli@heilsugaeslan.is.

Skólaheilsugæslan er hluti af heilsugæslunni og framhald af ung- og smábarnavernd. Markmið skólaheilsugæslu er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Starfsfólk skólaheilsugæslu vinnur í náinni samvinnu við foreldra, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda með velferð þeirra að leiðarljósi. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Starfsemi skólaheilsugæslunnar er skv. lögum, reglugerðum og tilmælum sem um hana gilda. Helstu áherslur í skólaheilsugæslu eru fræðsla, heilsuefling, bólusetningar, skimanir og skoðanir, umönnun veikra og slasaðra barna, ásamt ráðgjöf til nemenda, fjölskyldan þeirra og starfsfólks skólans.

Á Þroska- og hegðunarstöð er starfrækt skólasvið sem hefur það hlutverk að þróa, leiða og samræma heilsuvernd skólabarna í samráði við heilbrigðisyfirvöld og heilsugæsluna á landsvísu.

Skimanir og skoðanir

Að fylgjast með vexti barna gefur mikilvægar upplýsingar um heilsufar og næringarástand. Vaxtalínurit er einn besti mælikvarði sem völ er á til að fylgjast með almennu heilsufari og heilbrigði barna. Mikilvægt er að hæðar- og þyngdarmæla með reglulegu millibili til að geta metið frávik á vaxtarlínuriti. Þar sem vöxtur og holdafar er oft viðkvæmt efni fyrir börn og unglinga er mikilvægt að eftirfylgd sé í samráði við foreldra og framkvæmd á nærgætin hátt.

Vöxtur barna er mældur í 1., 4., 7. og 9. bekk.

Sjónpróf barna er mikilvægur þáttur í heilsuvernd. Sjóngallar eru nokkuð algengir meðal barna og unglinga og aukast með aldrinum. Ef ekki er gripið til viðeigandi úrræða hefur það áhrif á líðan og námshæfni nemandans.

Með sjónprófi í skóla er sjónskerpa (nærsýni) mæld á hvoru auga fyrir sig með því að ákvarða hversu smáa stafi barnið getur lesið úr ákveðinni fjarlægð. Sjónprófað er með HVOT töflu sem samsett er úr 4 bókstöfum, H-V-O-T. Þekki börn ekki stafina er til spjald með sömu bókstöfum sem barnið bendir á.

Sjónpróf fer fram í 1., 4., 7. og 9. bekk.

Bólusetningum er ætlað að verja einstaklinginn gegn alvarlegum smitsjúkdómum og draga úr hættu á smiti í samfélaginu. Sjúkdómar, sem landlæknir mælir með að öll börn á Íslandi séu bólusett gegn, geta valdið alvarlegum veikindum og jafnvel dauða.

Eftirfarandi bólusetningar fara fram í skólaheilsugæslunni og eru skv. tilmælum Landlæknis:

  1. bekkur: Mislingar, rauðir hundar og hettusótt (ein sprauta).

Auk þess fá stúlkur bólusetningu við leghálskrabbameini (Bólusett er tvisvar með 6 mán. millibili).

  1. bekkur: Mænusótt, barnaveiki, stífkrampi og kíghósti (ein sprauta).

Mikilvægt er að börn komi með bólusetningarskírteini sín í skólann þegar bólusetning á að fara fram. Ef líkur eru á að barnið sé ekki að fullu bólusett þá eru foreldrar hvattir til að hafa samband við skólaheilsugæsluna. Bólusetningar barna eru alltaf á ábyrgð foreldra.

Afþakki foreldrar bólusetningar fyrir börn sín þurfa þeir að tilkynna það skriflega til skólaheilsu­gæsl­unnar og slíkt ber að skrá í heilsufarsskrá barns.

Veikindi og slys

Ef óhapp eða slys verður á skólatíma sér starfsfólk skólans um fyrstu hjálp. Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð eða slysadeild skulu foreldrar fara með barninu. Því er mikilvægt að skólinn hafi öll símanúmer þar sem hægt er að ná í þá á skólatíma barnsins. Ekki er ætlast til að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt af skólaheilsugæslunni.

 

Skráning slysa og bótaskylda

Slys eru ýmist bótaskyld eða ekki. Sé slys bótaskylt samkvæmt úrskurði tryggingarfélags borgarinnar er allur útlagður kostnaður foreldra greiddur. Sé ekki um bótaskyldu að ræða er engu að síður greitt fyrir fyrstu komu á slysadeild, auk sjúkrabíls sé hann kallaður til.

Foreldrar þurfa að leggja út fyrir kostnaði sem til fellur á slysadeildinni eða hjá tannlækni og koma með reikning, ásamt upplýsingum um eigin bankareikning sem hægt er að leggja inn á, til skólastjórnenda.  Ef um tannlæknareikning er að ræða þarf að vera búið að fá hluta Sjúkratrygginga greiddan áður en endanlegum reikningi er komið til skólans.

Skólinn skráir niður þau slys sem verða á skólatíma á þar til gerð eyðublöð. Ef um alvarleg slys er að ræða er kallað á sjúkrabíl og mætir þá ætíð lögregla á staðinn. Foreldrum er alltaf tilkynnt um slys og óhöpp og fá einnig upplýsingar um slysaskráninguna. Skólastjóri upplýsir foreldra um réttindi og skyldur aðila og hvernig tryggingum nemenda er háttað.

Langveik börn

Mikilvægt er að skólaheilsugæslan viti af börnum sem eru með langvinnan og/eða alvarlegan sjúkdóm, s.s. sykursýki, ofnæmi, flogaveiki og blæðingarsjúkdóma. Þessum börnum sinnir skólaheilsugæslan í samráði við foreldra barnsins. Þjónustan getur meðal annars falist í:

  • umsjón og eftirliti með umönnun barna innan skólans þegar þess er þörf
  • vera tengiliður skólans við foreldra og meðferðaraðila þegar við á
  • taka þátt í heilsufarseftirliti nemenda þegar meðferð krefur
  • umsjón með lyfjagjöfum
  • útskýra fyrir starfsfólki skóla meðferð, lyfjagjöf og fleira eftir þörfum með leyfi viðkomandi foreldra
  • fræða starfsfólk skólans, nemendur og foreldra um einstaka sjúkdóma og/eða fatlanir með leyfi viðkomandi foreldra
  • stuðningur við barn og fjölskyldu þess
  • stuðningur og ráðgjöf við starfsfólk skólans

 

1.3.   Fræðsla og heilsuefling

Skólaheilsugæslan sinnir skipulagðri heilbrigðisfræðslu og hvetur til heilbrigðra lífshátta. Byggt er á hugmyndafræðinni um 6-H heilsunnar og kynheilbrigði sem er samstarfsverkefni skólaheilsu­gæslunnar og Lýðheilsustöðvar.

  • hollusta
  • hvíld
  • hreyfing
  • hreinlæti
  • hamingja
  • hugrekki

Eftir fræðslu fá foreldrar nemenda fréttabréf sent í tölvupósti. Þá gefst foreldrum kostur á að ræða við börnin um það sem þau lærðu og hvernig þau geti nýtt sér það í daglegu lífi.

Svefn

Að gefnu tilefni viljum við benda foreldrum á hve mikilvægt er að skólabörn fái nægan svefn og hvíld. Fái þau það ekki geta þau ekki notið þeirrar kennslu né sinnt því starfi sem fer fram í skólanum, þau verða þreytt og vinnan fer fyrir ofan garð og neðan. Hæfilegur svefn er talinn vera:

5 – 8 ára börn                 10 - 12 klst.

9 – 12 ára börn               10 - 11 klst.

13 – 15 ára unglingar       9 - 10 klst.

 

Lús

Því miður hefur það verið fastur liður í mörgum skólum undanfarin ár að lús komi upp. Nauðsynlegt er að láta skólann vita ef lús finnst í hári nemenda. Lús tengist ekki sóðaskap og er alveg hættulaus. Ef tilkynning um lús berst skólanum, munu allir nemendur viðkomandi bekkjar/árgangs fá tilkynningu heim.

Foreldrum er bent á nauðsyn þess að bregðast við slíkum tilkynningum og kemba hár nemenda. Hægt er að nálgast leiðbeiningar hjá skólahjúkrunarfræðingi og í apótekum.

Nánari upplýsingar um heilsugæslu í grunnskólum er að finna á vefsíðu skólaheilsugæslunnar www.heilsuvera.is undir tenglinum heilsuvernd skólabarna og á www.landlaeknir.is