Við skólann er starfrækt náms- og atferlismótunarver og er tilgangurinn með því að auka gæði náms þeirra nemenda í Árbæjarskóla sem eiga við sértæka náms– eða atferliserfiðleika að stríða. Þar er einnig sinnt þeim nemendum sem komnir eru á undan samnemendum sínum í námi. Starfið í verinu einkennist af fjölbreyttum kennsluháttum þar sem áherslan er á einstaklingsbundið nám, samkennslu og samvinnu nemenda. Lögð er áhersla á að styrkja sjálfstæð vinnubrögð nemenda og félagslega færni. Unnið er sérstaklega með atferlismótun, þar sem nemendum er hjálpað að breyta hegðun sinni og efla sjálfsstjórn.
Unnið er að eftirfarandi markmiðum
- að bæta líðan nemenda í skólastarfinu
- að styrkja sjálfsmynd og félagslega færni nemenda
- að nemendur fái kennslu við hæfi
- að bæta mælanlegan námsárangur nemenda
- að auka færni nemenda í samvinnunámi
- að auka færni nemenda í sjálfstæðum vinnubrögðum
- að auka metnað og áhuga nemenda
- að stuðla að góðri skólasókn nemenda
- að nemendur átti sig á gildi og nauðsyn góðrar grunnmenntunar
- að hjálpa nemandanum að hafa stjórn á eigin hegðun
Náms- og atferlismótunarver sinnir þeim nemendum sem vegna erfiðleika í námi eða hegðunar geta ekki verið í hópi og þurfa tímabundið að komast í annað umhverfi þar sem eru færri nemendur og styttri vinnulotur. Nemendur vinna sig út úr verunum og í sinn hóp með bættum námsárangri og breyttri hegðun.
Starfstilhögun
Nemendahópurinn í verunum samanstendur af nemendum úr mismunandi árgöngum sem eiga við náms – eða atferliserfiðleika að etja eða eru komnir á undan öðrum í náminu. Áhersla er lögð á einstaklingsmiðað nám og kennslu. Þetta felur meðal annars í sér getumiðaða samkennslu í smáum hópum þvert á árganga þar sem stutt er við sjálfstæð vinnubrögð og samvinnunám.
Hver nemandi tilheyrir ákveðnum árgangi en stundar nám sitt í verunum í einni námsgrein eða fleiri. Umsjónarkennarinn er lykilpersóna nemandans í skólastarfinu og fylgist því reglulega með framvindu hans þar. Þegar kemur að ákvörðun um innritun, stöðumat og útskrift skulu allar ákvarðanir teknar í samráði við umsjónarkennara.
Mikil áhersla er lögð á samskipti við heimilin þar sem nemendur eiga að finna að fylgst er náið með þeim jafnt heima og í skóla. Umsjónarkennari eða kennari í veri upplýsir foreldra reglulega um stöðu nemandans. Heimanám og öflug samvinna við heimilið er nauðsynlegur þáttur í starfsemi veranna og er ætlað að tengja enn betur saman heimili og skóla. Með því eykst enn frekar þátttaka foreldra í námi og atferli barnanna.
Verklag
- hver kennari ber ábyrgð á ákveðnum nemendum
- einstaklingsnámskrá er unnin fyrir hvern nemanda
- kennsluáætlun er unnin fyrir hvern nemanda
- einstaklingsmiðuð námsefnisgerð/verkefnagerð
- sjónrænt skipulag
- félagsfærnisögur
- Teacch-aðferð (Skipulögð kennsla)
- reglulegir fundir með umsjónarkennurum/árgangakennurum/fagkennurum/foreldrum
- gott upplýsingaflæði milli veranna, umsjónarkennara og foreldra
- flæði milli veranna
- tímabundin aðstoð inn í árganga
Hver kennari ber ábyrgð á ákveðnum nemendum
Allir nemendur sem koma í námsver eru á ábyrgð ákveðins kennara þar. Ef nemandi innritast í stærðfræði verður hann í umsjón stærðfræðikennara, nemandi sem innritast í íslensku verður í umsjón íslenskukennara o. s.frv. Ef nemandi innritast í fleiri en eitt fag, meta kennarar námsvers hvaða kennari í námsveri ber ábyrgð á viðkomandi nemanda. Sá kennari sér um að einstaklingsnámskrár og kennsluáætlanir séu gerðar í samvinnu við fagkennara og fylgist með námi nemandans í námsverinu og skólasókn hans þar. Þá leitast hann við að vera í góðu sambandi við nemandann, fagkennara og umsjónarkennara.
Nemendur í atferlismótunarveri eru á ábyrgð kennara atferlismótunarvers.
Einstaklingsnámskrá
Gerð er einstaklingsnámskrá fyrir alla nemendur sem koma í námsver með upplýsingum um kennsluþætti, kennsluefni, námsmat, skammtíma- og langtímamarkmið, styrkleika, áhugamál, námsaðlögun, félagsfærni og samskipti. Sá kennari sem ber ábyrgð á nemanda í námsveri gerir einstaklingsnámskrá í samráði við fagkennara og umsjónarkennara.
Nemendur sem innritast í atferlismótunarver fá einstaklingsnámskrá með markmiðum og leiðum að þeirri færni sem á að styrkja. Nemendur í atferlismótunarveri sem ekki fylgja námskrá árgangsins fá einstaklingsnámskrá sem kennari atferlismótunarvers gerir í samráði við fagkennara og umsjónarkennara árgangsins.
Kennsluáætlun
Kennsluáætlun er útbúin fyrir alla nemendur sem koma í námsver. Kennsluáætlun skal aldrei gilda nema að hámarki í 4 vikur í senn. Að þeim tíma liðnum skal endurmeta stöðu nemandans.
Námsefnisgerð/verkefnagerð
Kennarar í náms- og atferlismótunarveri sjá til þess að nemendur fái námsefni og verkefni við hæfi. Mikilvægt er að vera í góðu samstarfi við fagkennara þegar val á námsefni fer fram.
Sjónrænt skipulag
Útbúið er sjónrænt skipulag fyrir þá nemendur sem það þurfa. Í sjónrænu skipulagi felst m.a.
- stundatafla
- hegðun í kennslustundum, þ.e. upphaf, miðja og endir kennslustundar
- vinnubrögð í kennslustundum, þ.e. á hverju á að byrja og viðfangsefni kennslustundarinnar
Félagsfærnisögur
Útbúnar eru félagsfærnisögur fyrir þá nemendur sem það þurfa en í þeim felast m.a. leiðbeiningar um
- hegðun í kennslustundum
- hegðun í frímínútum
- fara eftir skólareglum
- félagsleg samskipti
Teacch aðferð (skipulögð kennsla)
Í skipulagðri kennslu felst m.a.
- sjónrænt, skipulagt vinnuumhverfi eftir ákveðnu vinnukerfi
- sjónræna umhverfið segir barninu hvar á að byrja og hvenær vinnu lýkur
- umbun/verðlaun eftir vinnu og einnig inn á milli verkefna ef þarf
- hæfilegur fjöldi verkefna á dag
- fjölbreytileg verkefni
- verkefnaval og vinnuumhverfi í samræmi við þroska barnsins
Fundir með umsjónarkennurum árgangsins/fagkennurum/foreldrum
Til að nám nemandans í náms- og atferlismótunarveri verði eins markvisst og kostur er, er nauðsynlegt að kennarar hans hafi gott upplýsingarflæði sín á milli og gott samband sé á milli heimilis og skóla. Fundi náms- og atferlismótunarverskennara með öðrum kennurum sem koma að nemandanum og foreldrum skal halda eins oft og þurfa þykir.
Gott upplýsingaflæði milli náms- og atferlismótunarvers og foreldra
Til að halda foreldrum vel upplýstum um nám barna sinna í náms- og atferlismótunarveri er nauðsynlegt að vera með gott upplýsingaflæði á milli funda.
Flæði milli námsvera
Nemandi sem hefur innritast í atferlismótunarver og hefur náð settum markmiðum um hegðun, getur farið eftir útskrift þar í námsver, ef hann þarf á sértækri námslegri aðstoð að halda.