Í Árbæjarskóla er lögð áhersla á góð tengsl við grenndarsamfélagið. Grenndarsamfélag skóla er annars vegar landfræðilegt, þ.e. náttúran og nánasta umhverfi skólans, og hins vegar félagslegt, þ.e. samskipti við fjölskyldur, félög og stofnanir. Grenndarsamfélag skóla getur verið skólahverfið, borgarhlutinn eða borgin sjálf.
Rík áhersla er lögð á það í Árbæjarskóla að umhverfi skólans sé notað á markvissan hátt. Útikennsla er einn liðurinn í að ná fram því markmiði. Skólinn hefur gert samning við Umhverfissvið Reykjavíkurborgar um grenndarskóg skólans. Skógurinn er sunnan megin við Elliðaárnar, gegnt skólanum. Skólinn hefur óheftan aðgang að skóginum í skipulegu skólastarfi, til náms og dvalar, en hann er jafnframt opinn almenningi til útivistar.
Umhverfismál s.s. sorpflokkun, endurnýting og umhverfisvernd er ein af undirstöðum skólastarfsins.
Heimsóknir nemenda í stofnarnir og fyrirtæki í nágrenni skólans eiga sér einnig fastan sess í skólastarfinu.
Árangursríkt skólastarf byggir á góðri samvinnu og gagnkvæmu trausti heimilis og skóla. Foreldrar eru ætíð velkomnir í skólann og eru þeir hvattir til að fylgjast vel með námi og starfi barna sinna í skólanum. Kynningarfundum fyrir foreldra er ekki síst ætlað að styrkja sambandið milli heimilis og skóla. Við skólann er starfrækt öflugt foreldrafélag sem kemur að skólastarfinu með ýmsum hætti. Einnig eiga fulltrúar foreldra og aðili úr grenndarsamfélaginu sæti í skólaráði skólans.
Í félagsmiðstöðinni Árseli á sér stað fjölbreytt starfsemi. Þar er m.a. frístundaheimilið Töfrasel sem ætlað er nemendum í 1. – 4. bekk eftir að skóladegi lýkur. Einnig er þar starfrækt félagsmiðstöðin Tían sem ætluð er nemendum í 5. – 10. bekk. Samstarf skólans við Ársel er mikið. Skólinn er einnig í góðu sambandi við lögregluna í tengslum við hverfalöggæslu borgarinnar.
Í Árbæjarhverfi er starfrækt íþróttafélagið Fylkir. Íþróttakennsla eldri nemenda skólans hefur farið fram í Fylkishöllinni auk þess sem íþróttafélagið hefur nýtt íþróttahús skólans til ýmissa æfinga. Þá er íþróttafulltrúi félagsins fulltrúi grenndarsamfélagsins í skólaráði skólans. Þá er skólinn í samstarfi við líkamsræktarstöðina World Class sem hefur aðsetur í Fylkishöllinni og þar geta nemendur skólans stundað margvíslega líkamsrækt undir handleiðslu íþróttakennara skólans. Er þetta samstarf hluti af þróunarverkefninu Hreyfing til framtíðar.
Árbæjarskóli og Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts eiga mikið samstarf. Skólinn nýtur sérfræðiþjónustu frá þjónustumiðstöðinni. Markmið þjónustunnar er að veita markvissa og heildtæka þjónustu á þverfaglegum grunni til að mæta sérþörfum barna og fjölskyldna þeirra. Sérfræðingar þjónustumiðstöðvarinnar veita margháttaða ráðgjöf og þjónustu við skólann s.s. sálfræðilegar athuganir og ráðgjöf, ráðgjöf vegna sérkennslu, kennslu- og leikskólaráðgjöf, unglinga- og félagsráðgjöf og hegðunarráðgjöf.
Um nokkurra ára skeið hefur skólinn átt gott samstarf við skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts og Tónskóla Árbæjar. Kennsla og æfingaaðstaða nemenda er í Árbæjarskóla. Um er að ræða einkatíma en hópæfingar fara fram utan skólans. Þá hefur Leynileikhúsið verið með æfingaaðstöðu í skólanum.
Samstarf Árbæjarskóla við leik- og grunnskólana í hverfinu hefur verið mikið í gegnum tíðina. Nemendur leikskólanna hafa heimsótt skólann reglulega og undirbúið sig þannig fyrir væntanlega skólagöngu. Þá er Árbæjarskóli safnskóli á unglingastigi þar sem til náms í 8. bekk koma nemendur úr Árbæjarskóla, Ártúnsskóla og Selásskóla. Samstarf þessara þriggja skóla er náið. Einnig er samstarf skólanna í borgarhluta 3 mikið en þar eru skólar úr Árbæ, Norðlingaholti og Grafarholti. Þá á skólinn í góðu samstarfi við Borgarholtsskóla og Tækniskólann þar sem nemendum Árbæjarskóla gefst kostur á að stunda valgreinar.
Gott samstarf er við Orkuveituna þar sem nemendum í 10. bekk gefst kostur á að stunda valfagið iðnir og tækni en það nám lítur að því að vekja áhuga þeirra á iðn- og tæknistörfum og kynna þeim þau fjölbreyttu störf og starfstækifæri sem iðn- og tækninám hefur upp á að bjóða. Námið byggir á fræðslu, vettvangsferðum og verklegum æfingum. Námið fer fram hjá Orkuveitunni og er það iðn- og tæknimenntað starfsfólk Orkuveitunnar sem heldur utan um námið ásamt deildarstjóra verkefna í Árbæjarskóla.